154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

mat á menntun innflytjenda.

730. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra svörin. Í framhaldi af þessu vil ég einmitt halda áfram með þetta: Hvar er úrbóta þörf og hvar getum við farið í úrbætur? Það sem ég vil einblína á er að ef mat á námi leiðir í ljós að umsækjanda vantar tiltekna þekkingu þá þyrfti að vera tryggt að hann fengi leiðbeiningar varðandi næstu skref, þar á meðal upplýsingar um hvert hann ætti að snúa sér varðandi náms- og starfsráðgjöf. Það er mjög mikilvægt fyrir einstaklingana og samfélagið að menntun sem fólk hefur aflað sér nýtist, þannig að ef því væri leiðbeint inn í náms- og starfsráðgjöf væri tryggð samfella og greið leið til framhaldsfræðslunnar, framhaldsskólanna eða háskólanna í framhaldi af mati. Til að það gerist þá held ég að það þyrfti að skýra hlutverk þeirra sem koma að matinu um það hvað gerist í framhaldinu. Það hefur svo aftur bein tengsl við raunfærnimat sem við ræðum hér á eftir.

En það var líka annað sem kom fram í máli hæstv. ráðherra sem ég vildi aðeins taka upp. Það er varðandi heimild framhaldsskólanna til að meta þekkingu í móðurmáli. Þar held ég að við gætum staðið okkur miklu betur í að bjóða upp á stöðupróf í öllum þeim tungumálum sem töluð eru hér á landi. Það gæti jafnframt verið hvati fyrir börn meðan þau eru í grunnskóla að viðhalda og leggja sig fram um að lesa og læra á sínu móðurmáli. Svo tengjast þessar vangaveltur auðvitað heildarsýn í málefnum útlendinga og innflytjenda sem var nýlega samþykkt af ríkisstjórninni og endurskoðun framhaldsfræðslukerfisins.